Thursday, September 30, 2010

– (Ástar)lífið á háskólasvæðinu –









Ég er ein af þeim óákveðnu. Hvort sem málið snýst um fötin sem ég vel mér á morgnana, mennina sem ég sef hjá eða fögin sem ég læri, þá finnst mér alltaf jafnerfitt að ákveða mig! Og alltaf vel ég vitlaust. Þetta er pínlegt. Ég er oft svo illa til fara að ég lengi vel studdist við ráð frá tiskublogg.blogspot.com sem er paródía! Ég hef aldrei getað verið í alvarlegu sambandi. Og ég hef verið í þessum skóla síðan 2005, í fullu námi, aldrei fallið en heldur aldrei útskrifast.

Dagurinn í dag var engin undantekning á þessari bölvaðri óákveðni minni. Ég ætlaði að labba út í Andersen&Lauth kjól í bleiku crocsskónnum mínum. Hann granni minn Haffi stoppaði mig á stigaganginum: „Ertu viss um þetta?“ sagði hann og benti á skónna. Það getur verið mjög þægilegt að eiga svona tískufróða og gay nágranna. Og já, þetta er ekki Haffi Haff, reyndar hafa svo margir ruglast á þessu nafni síðastliðið árið að nú kalla hann flestir Haffa Ekki-Haff. En samkynhneigður er hann eins og nafni hans.
En ég var að verða of sein á fyrirlestur og hafði ekki tíma til að skipta um skó. En ég hefði betur mátt skipta um skó og vera aðeins of sein. Því:
Ég datt inn á einhvern stærðfræðifyrirlestur í Háskólabíói um hádegið vegna þess að ég gat ekki munað hvort fyrirlesturinn sem ég hafði ætlað mér að fara á væri í Háskólabíói eða Háskólatorgi. Auðvitað var hann svo á Háskólatorgi.
Þegar ég loks áttaði mig á mistökum mínum var of seint að smygla mér út því ég hafði valið sæti framarlega í miðjunni, það var vægast sagt fjölmennt þarna inni og ekki ætlaði ég að vera Stelpan-í-bleiku-crocsskónum-sem-eyðilagði-fyrirlesturinn.
Svo ég sat þennan fyrirlestur, næstum til enda, og skemmti mér konunglega. Stærðfræðin var hundleiðinleg en beint fyrir framan mig sat strákur, alveg jafnráðvilltur og ég. Ég sá hann opna vefsíðu fyrirlestursins sem ég hafði ætlað mér að fara á. Ég teygði mig niður til hans.
„Ætlaðirðu á Evrópufyrirlesturinn?“ hvíslaði ég í eyra hans. Honum brá svo svakalega að hann gaf frá sér vandræðalegt óp. Feitur fyrirlesari þagnaði og horfði pirraður í áttina til okkar.  Strákurinn ræksti sig, roðnaði og lét sig síga niður í sætið.
„Ég líka,“ flissaði ég. Hann var nú meiri dúllan. Eflaust á fyrsta ári og að fara á sinn fyrsta fyrirlestur. Hann var myndarlegur, vel byggður og greinilega með svipað áhugasvið og ég fyrst við ætluðum á sama fyrirlestur. Hann var líka með blá augu, sem mér finnast einstaklega aðlaðandi enda  sjálf með blá (já, ég er svolítill Narsisisti).
„Í hverju ertu?“ spurði ég.
„Ha?“ spurði hann mig alveg gáttaður. „Ég veit ekkert um svona lagað,“ sagði hann og renndi augunum niður svarta peysuna sína.
Fyrst skildi ég ekki alveg hvað hann átti við en svo áttaði ég mig á misskilningnum og ég rak upp skellihlátur.
„Nei, ég átti ekki við fötin þín, heldur fagið þitt!“ Einhver sussaði á mig.
Þetta var upphafið á þeirri fyrrnefndu konunglegu skemmtun minni meðan á stærðfræðifyrirlestrinum stóð. Strákurinn hét Finnur og var í stjórnmálafræði, því höfðum við margt að tala um. Ég sagði honum frá því þegar ég var einn vetur í stjórnmálafræði en hætti vegna þess að ég vildi ekki taka áfangann sem að hinn æviráðni Hannes Hólmsteinn kenndi. Finnur var nýkominn úr ársdvöl í Kína sem sjálfboðaliði sem mér fannst ótrúlega kynþokkafullt. Hann sagði mér frá því þegar hann hjálpaði fátækum hrísgrjónabændum að rækta telauf til að hrekja burtu fíla í útrýmingarhættu sem eyðilögðu hrísgjrón þeirra en í miðri frásögn var hann stoppaður og fyrirlesarinn bað okkur vinsamlegast um að fara ef við ætluðum ekki að hlusta. Ég flissaði bara og lét ekki sjást á mér hversu vandræðalegt mér fannst að klöngrast fram hjá um fimmtán sætum í bleikum crocsskóm. Á leiðinni upp stigann tók ég utan um upphandlegg Finns, sem var áhættusöm viðreynsla en hann tók henni vel og flissaði með mér alla leiðina upp stigann.
„Viltu koma og fá okkur kaffi?“ spurði ég hann.
Hann kinkaði kolli og brosti feimnislega. Mig var farið að gruna að kannski væri hann hreinn, (en hreinir strákar eru auðvitað ekki algengir hérna á háskólasvæðinu. Ég elska hreina stráka því annaðhvort eru þeir svo saklausir að þeir varla þora að snerta mann, eða svo fróðir frá klámmyndaáhorfi að þeir geta ekki beðið eftir að prófa allt það sem þeir höfðu séð).
Við röltum yfir í Árnagarð og sátumst inn á kaffistofu. Hún var frekar tóm og því nóg næði til að ræða saman. Eða svo hélt ég.
Þegar við vorum nánast nýsest niður gekk Steinn inn. Ó, hvað ég var ástfangin af honum fyrir tveimur árum. Ég hafði aldrei verið með jafngóða mætingu og í áfanganum sem hann kenndi mér. Ég vissi ekki einu sinni að ég hafði áhuga á kennsluefninu hans. Eftir áfangann komst ég líka að því að áhugi minn hafði allur beinst að honum. En ég hélt aftur að mér, sem ég hef aldrei áður gert þegar kemur að karlmönnum. Það þýddi auðvitað ekkert að vera með tæplega fimmtugum giftum kennara sínum í þessu pínulitla samfélagi.
„Hæ!“ kallaði ég til hans og blótaði framhleypni minni í hljóði.
„Nei, Fanney,“ sagði hann. „Hvað dregur þig hingað? Þú varst byrjuð í stjórnmálafræðinni, ef ég man rétt?“
„Ja, ég er reyndar hætt í henni,“ ég roðnaði.
„Þú ert alltaf að skipta um skoðun!“ sagði hann og hló. Hjartað mitt byrjaði að slá svo ört að ég var nánast hrædd um að hann heyrði í því ryðja sér leið út úr brjóstkassa mínum.
„Þetta er Finnur, hann er hins vegar í stjórnmálafræði,“ sagði ég og reyndi að láta sem ekkert væri. „Finnur, þetta er Steinn kennari í Íslensku- og menningardeildinni.“
Þeir tókust í hendur og Steinn settist niður á móti okkur. Ég reyndi að laga hárið aðeins til, vildi ekki vera drusluleg fyrir framan kennarann minn.
„Finnur var að koma úr árslangri ferð til Kína,“ sagði ég flissandi. „Þið hafið þá ef til vill sitt hvað að tala um.“ Ég átti við ljóðabók sem Steinn hafði skrifað fyrir löngu og fjallaði um hvernig það væri að vera Íslendingur í útlöndum. Finnur skildi auðvitað ekki hvað ég átti við en Steinn brosti kurteisislega. Þá áttaði ég mig á því hversu vandræðalegt þetta hafði verið.
„Ég dvaldist í Japan fyrir um fimmtán árum síðan,“ útskýrði Steinn fyrir Finni. „En ég vissi ekki að þú vissir það.“ Hann beindi orðum sínum að mér.
„Ég vissi það reyndar ekki fyrir víst, en ég las ljóðabókina þína,“ sagði ég. „Það kom nokkuð skýrt fram þar.“ Ég flissaði en áttaði mig á því að ég hafði ekkert annað gert en að flissa síðan Steinn birtist svo ég snarþagnaði og hætti að snúa upp á hárlokkinn sem ég hafði verið að laga til allt of lengi. Ég reyndi að anda rólega og slaka á. Þá fyrst fóru samræðurnar að taka á sig eðlilegt form og duttum við inn í djúpar samræður um náttúrulýsingar Bjarna Thorarensen.
Ég rankaði ekki við mér fyrr en ég fattaði að ég var orðin tuttugu mínútum of sein í tíma. Finnur var víst farinn fyrir löngu og án þess að kveðja, nema að ég hafi bara ekki verið að hlusta þegar hann kvaddi. Ég veit það ekki. Alltaf vel ég rangan mann.