Ég styð vændi, eins og kannski sést, en ég hef þó aldrei stutt svik. Ég hef fylgt mönnum sem fengið hafa leyfi hjá konum sínum, ég hef fylgt pörum líka. Þeir menn sem fara á bak við eiginkonur sínar til að vera með mér segja ástæðuna oft vera vegna vandræðalegra hvata. Og stundum eru þessar hvatir bara ekkert svo vandræðalegar! Af hverju ekki að spyrja eiginkonuna hvort hún sé ekki til í að koma bara með, (þá yrði hann allavega hreinskilinn)? Kynferðisleg útrás ætti ekki að vera svona mikið „taboo“.
Giftur maður sem kaupir sér fylgd án leyfir eiginkonunnar heldur fram hjá. Hann gerir sér fullkomlega grein fyrir því en ef upp um hann kemst virðist hann aldrei vera tilbúinn til að taka afleiðingunum. Og – athugið að titill færslunnar heitir Um vændiskaup á Íslandi – afleiðingarnar hér á þessari litlu eyju geta verið afar slæmar. Þeir eiga möguleika á að missa konuna, niðurlægja börn sín og valda foreldrum sínum vonbrigðum. Allir þekkja alla og allir tala við alla.
NEMA ef kaupandinn er útbrunninn þáttastjórnandi á stöð tvö - jafnvel þótt öll þjóðin viti að hann hefur áður haldið fram hjá.
Eða þjóðþekktur dægurlagasöngvari - jafnvel þótt öll þjóðin viti að hann á krakka í hverju plássi.
Eða soon-to-be-fyrrverandi eiginmaður flokksleiðtoga - jafnvel þótt öll þjóðin styðji við bak hennar í skilnaðinum.
Ef kaupandinn fellur undir eitthvað af þessu fær hann stykkfrí og nýtur nafnleyndar á kærupappírunum.
Ég er ekki ánægð með að sumir njóta friðhelgi einkalífsins en aðrir ekki – en myndi helst vilja að allir fengju að njóta hennar. En svona er lífið. Til þeirra sem ekki falla undir fyrrnefndar lýsingar: Verið tilbúnir að taka afleiðingunum!