Saturday, November 20, 2010

– Sif –



Vikan var að mestu leyti góð. Lífið gekk eins og í sögu. Ég og Freybjörn vorum eiginlega orðin föst og Eric var næstum alveg horfin úr huga mínum. Ég og Freybjörn hittumst á hverjum degi eins og bálskotnir unglingar og sendum hvort öðru sms þegar við vorum ekki saman. Þar til ég mætti honum við Lækjartorg. Hann var ekki einn á ferð. Hjartað mitt datt niður í maga og ég óskaði þess innilega að þarna væri hann á ferð með systur sinni. Ég fann kökk myndast í hálsinum og kuldahrollur lék um líkama minn. Þetta var ekki systir hans. Um leið og hann sá mig roðnaði hann og kyngdi, að því er virtist, kekki á stærð við tennisbolta. Hann átti dóttur. Stelpan var í bleikri úlpu, með bakpoka merktum Sif Freybjörnsdóttir og hélt á poka af brauði, greinilega á leiðinni að gefa öndunum.
            „Hæ, Fanney,“ sagði Freybjörn að fyrra bragði.
            Ég gat ekki heilsað á móti, hafði enn ekki náð að kyngja mínum eigin kekki.
            „Fanney, þetta er dóttir mín Sif.“
            Ég og Sif störðum hvor á aðra án þess að segja orð. Hún var einmitt á þessum aldri sem ég hata. Börn í miðjum vaxtakipp og vita ekkert hvað þau eru stór. Hendurnar í vitlausum hlutföllum miðað við höfuðið og fótleggirnir kannski svipað stórir og upphandleggirnir. Hún var krakki. Ég hata krakka. Smábörn eru alveg fín, svo lengi sem þau eru ekki nálægt manni í flugvélum og svoleiðis. En krakkar eru aðeins til ama, vita ekki neitt en þykjast vita allt. Alltaf í einhvers konar leynifélögum að njósna um aðra og gera dyrabjölluat. Ef ég fengi að ráða myndu barnaskólar vera betur að girtir en Litla Hraun.
            „Við erum að fara gefa öndunum brauð,“ sagði Freybjörn til að fylla upp í þá óþægilegu þögn sem ríkti.
            „En ekki mávunum,“ sagði Sif litla, „af því að þeir eiga heima hjá sjónum.“
            „Mikið rétt,“ sagði Freybjörn og lagði hendina sína á höfuð hennar.
            Allt í einu fór um mig annar skelfilegur hrollur.
            „Er ekki allt í lagi?“ spurði Freybjörn. „Er þér kalt?“ Hann byrjaði á að hneppa frá frakkanum sínum. Þvílíkur herramaður. En ég gat ekkert sagt enn og gerði það eina sem mér datt í hug að gera: Ég hljóp burt.