Ég fékk skyndiboð frá Karli um að fylgja íslenskum manni sem hafði verið með honum í viðskiptanámi. Karl sýndi mér facebook-síðu hans. Ungur, ljóshærður og hávaxinn. Ágætlega myndarlegur og í fyrstu vissi ég ekki alveg af hverju hann hafði frekar valið sér að borga fyrir kynlíf en að næla sér í „ókeypis“ stelpu. Kynþokkafullur strákurinn hefði getað fengið hvaða stelpu sem er. Það hlaut að vera eitthvað bogið við kyn-lífsstílinn hans. Af reynslunni að dæma bjóst ég við að hann yrði Dýrslegur og ákvað á þeirri stundu að kalla hann Dýra hér á blogginu.
Hann beið eftir mér inni á hótelherbergi (sumar starfsystur mínar fá menn heim til sín en ég hef aldrei og mun aldrei gera slíkt). Flestir Íslendingar sem kaupa sér þjónustu eru annaðhvort orðnir þreyttir á að komast ekkert áfram með stelpum eða hafa svo furðulegar hvatir að þeir þora ekki að njóta þeirra með „ókeypis“ kvenfólki, ég get ekki talið á fingrum mér hversu mörgum mönnum í sambandi ég hef fylgt. –Það vantar blætisbar á Ísland!– Ég bankaði á herbergishurðina.
„Kom inn,“ heyrðist kallað innan úr herberginu. Ég tók í hurðarhúninn en hurðin var læst. Ég reyndi aftur en það var greinilega harðlæst. Þá opnaði hann dyrnar. „Æ, fyrirgefðu. Ég hélt að það væri opið.“
Það er mjög auðvelt að sjá hvaða kúnnar hafa aldrei borgað fyrir kynlíf. Þeir eru yfirleitt mjög vandræðalegir til að byrja með, gera mörg klaufaleg mistök, horfa annaðhvort mjög stíft í augun á mér (eins og þeir séu að velta því fyrir sér hvort ég sé lögregla) eða neita að ná augnsambandi vegna feimni sinnar. Dýri virtist vera blanda af þessu öllu. Hann hrasaði næstum um teppið vegna þess að hann sleit ekki augnsambandinu við mig en þegar hann hafði komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekkert að óttast virtist hann ekki vilja horfa í áttina til mín.
„Myndirðu vilja erótískt nudd?“ spurði ég hann. -Ég nota nudd oft til þess að róa upptrekta kúnna niður. Ég gæti jafnvel gefið góðar leiðbeiningar um hvernig er best að gera svoleiðis ef áhugi er fyrir því. Það er einstaklega gott fyrir hjónabandið.- Dýri hafði heldur ekki gefið Karli neinar upplýsingar um hvað hann vildi – hefur ef til vill ekki viljað að skólafélagi hans vissi sínar dýpstu og myrkustu hvatir.
„Allt í lagi,“ svaraði hann og ég sótti nuddolíuna ofan í töskuna mína.
„Viltu ekki klæða þig úr?“ spurði ég. Hann sat sem fastast á rúminu og starði á gólfteppið. Hann var greinilega feimnari en ég hélt. Ég gekk að honum og benti honum á að leggjast á magann. Hann hlýddi en fór ekki úr fötunum. Það var greinilega erfiðara en ég hélt að draga hann út úr skelinni. Ég settist ofan á hann, smeygði olíubornum höndunum innan undir peysuna og teygði mig eins langt og ég gat upp bakið. Ég nuddaði hægt niður þar til ég kom að buxnastrengnum.
„Viltu losa um beltisólina?“ bað ég hann um. Hann hlýddi og hendur mínar struku niður að mjóbakinu. Þegar ég hafði nuddað það vel og lengi tók ég um lófa hans og þrýsti. Ég færði mig ofar upp handlegginn þar til peysuermin þrengdi óþægilega að.
„Viltu fara úr peysunni?“ bað ég hann um. Hann hlýddi sem fyrr. Ég strauk létt yfir axlirnar, ákvað að taka þrennuna á þetta og spurði í síðasta sinn:
„Viltu koma úr öllu?“ Hann hikaði eitt augnablik en sneri sér svo við. Eric leit framan í mig og ég hrökk við.
„Hvað?“ spurði Dýri og leit á mig eins og styggt skógardýr.
„Ekki neitt.“ Ég lokaði augunum og reyndi að róa mig. Þetta er ekki Eric. Ekki Eric. Þetta er Dýri. Hvað er Eric eiginlega að gera í hausnum á mér?
„Jú, það var eitthvað að,“ sagði Dýri. „Hvað er að mér? Er ég ljótur? Er ég asnalegur? Er þetta af því ég missteig mig á teppinu?“
Ég skildi þá af hverju hann hafði kosið að kaupa sér þjónustu í stað þess að velja sér stelpu af handahófi á bar: Hann var með kvenlega lítið sjálfstraust.
„Nei, þú ert bara svo öðruvísi en allir hinir,“ laug ég til að leiðrétta mistök mín. „Þú ert mun myndalegri en allir sem ég hef verið með. Ég er bara óvön því að vera með myndarlegum og gáfuðum manni.“
„Þú lýgur þessu.“ Dýri sneri sér undan en ég sá hann brosa í spegilmynd sinni á glugganum. Ég hélt áfram að hrósa honum, mundi sitt hvað af upplýsingum frá facebooksíðunni hans og svo hafði Karl talað vel um frammistöðu hans í viðskiptanáminu.
Þegar tíminn hans rann út var hann fullur metnaðar og var harðákveðinn í að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og bjóða þjónustustúlkunni á kaffihúsi einu út. Við höfðum varla snert hvort annað síðan ég strauk á honum axlirnar en svo virtist sem hann væri fullánægður með fylgdina. Ég náði að hamra í hann aðeins meira gull og sjálfsálit hans óx, sem gerði hann enn kynþokkafyllri en hann var áður. Hann játaði að hafa aldrei verið með stelpu og ég átti að ljúka afsveinunni af fyrir hann. Hann virtist þó feginn því að hafa ekki gefið hóru sveindóminn sinn, enda var hann bálskotinn í þessari kaffihúsastelpu. Ég gat samt ekki hægt að hugsa um hvað hann var líkur Eric. Ætli þeir hafi verið bræður?
Þegar ég kom heim til mín mætti ég kærasta Haffa í anddyrinu. Hann var með tösku og bólgin augu og ég vonaði innilega að þeir hefðu nú ekki hætt saman. Þeir voru eitthvað svo sætir. En inni hjá mér brast von mín og Haffi sat í fanginu á Amalíu (nýinnfluttum meðleigjanda mínum), grét og kveinaði. Hann og Amalía þekktust víst eitthvað fyrir en þetta kom mér samt undarlega fyrir sjónum þar sem ég þekkti Amalíu lítið. Kvöldið fór í að hressa hann við, ég bjó til margarítur – bæði hanastél og pítsur – og við töluðum um stráka. Ég áttaði mig ekki á því hvað ég hafði talað mikið um Eric fyrr en Haffi sagði: „Jæja, ég get ekki hlustað lengur á þessar lýsingar. Ég verð að horfa á True Blood núna!“
Er ég virkilega orðin hrifin?