Tuesday, November 2, 2010

– Elskendur hafa eyru –



Ég sat á Háskólatorgi og slúðraði með tveimur vinkonum mínum. Ég var að segja þeim frá hrekkjavökuævintýrinu mínu þegar gripið var í öxl mína. Og þar stóð hann, Eric sjálfur. Nú var hann mun eðlilegri, í gallabuxum og stuttermabol. Gleraugu með þykkri umgjörð hvíldu á nefi hans og ekki snefill af geli var í hárinu.
            „Hæ, mætti ég aðeins tala við þig?“ spurði hann.
            Mér brá rosalega en hélt andlitinu. „Já, auðvitað.“ Ég stóð upp og við gengum inn í Bóksöluna.
            „Hvað gengur eiginlega að þér?“ spurði hann.
            „Hvað?“
            „Þú varst að segja vinkonum þínum allt!“ útskýrði hann. „Ég vil ekkert að þær viti hversu stórt typpi ég er með!“ Ég reyndi að muna hversu nákvæmlega ég hafði lýst laugardagskvöldinu. „Og ég vil heldur ekkert að þær viti að ég fékk það á undan þér eða í hvaða stellingu við vorum í eða leyft þeim að sjá sogblettinn sem ég gaf þér – sem by the way sést í gegn um klútinn þinn.“ Bústinn bóksali leit í áttina til okkar og pírði augun til að sjá betur á mér hálsinn. „Veistu hvað það er pínlegt að sitja á Háskólatorgi og hlusta á manneskjuna við hliðina á manni lýsa frammistöðu manns í rúminu?“
            „Ég hafði ekki hugmynd um að þú værir þarna,“ svaraði ég og vonaði að hann færi nú ekki að lesa bloggið mitt. „En þær þekkja þig ekki, þær hafa aldrei séð þig og vita ekki hvað þú heitir. Ég veit ekki einu sinni hvað þú heitir!“
            „Ég þekki aðra þeirra! Og ég er guðs lifandi feginn að ég hafi ekki sagt þér nafnið mitt,“ sagði hann. „En annars eru allmargir sem vita að ég var í sama partýi og þú, og vita að ég var í Eric Northman-búningi.“
            „En þær vita það ekki!“ sagði ég.
            „Mér er alveg sama, ég vil ekki að þær geti komist að því.“ Hann tók af sér gleraugun eins og hann vissi ekki hvað hann ætti að gera við hendurnar sínar.
            „Þetta er allt í lagi. Þær komast ekki að því. Ég skal sjá til þess,“ sagði ég og lagði lófann minn á öxlina hans honum til huggunnar. „Ég þarf samt að segja þeim eitthvað núna, þær eiga eftir að spyrja mig við hvern ég hafi verið að rífast. Og þú sagðir að önnur þeirra þekki þig. Svo þú hefur engan annan kost en að segja mér hvað þú heitir.“
            Eric setti aftur á sig gleraugun og stundi – stunan lýsti pirringi en svipaði þó allmikið til stunanna sem hann hafði gefið frá sér síðastliðið laugardagskvöld.
            Hann sagði mér til nafn síns en sökum nafnleyndar bloggsins mun hann halda áfram að vera kallaður Eric.
            „Gaman að kynnast þér, Eric,“ sagði ég. „Hefur þú áhuga á að vita hvað ég heiti?“
            „Nei, en ég held að ég neyðist til þess.“
            „Ég heiti Fanney. En númerið færðu ekki.“
            „Ég hef hvort eð er engan áhuga á því.“ Hann sneri sér við og gekk út en ég kallaði á eftir honum:
            „Það var virkilega gaman að kynnast þér.“ Ég lækkaði röddina. „Það var mjög gott.“
            Hann fraus í sporunum og hugsaði um það sem ég hafði sagt.
            „Sömuleiðis.“