Thursday, November 11, 2010

– Öfund, losti og reiði –



Ég er opinberlega hætt að vera hrifin af Eric! Í síðustu viku náði ég tali af honum í skólanum. Það er afar sjaldgæft að ég verði svona skotin og því ákvað ég að gera eitthvað í málunum. Ég daðraði, flissaði og lék við hárið á mér. Allt virtist hafa gengið vel. Að lokum fékk ég númerið hans og hann mitt. Við sögðumst ætla að hringja í hvort annað um helgina.
            Á föstudagskvöldinu sá ég Eric í röðinni fyrir framan Kaffibarinn og varð ótrúlega spennt. Ég hringdi í hann aftast úr röðinni og ætlaði að athuga hvort ég gæti ekki komið mér örlítið framar. Þá sá ég hann taka símann upp, líta á hann og setja hann aftur niður í vasann. Hann hunsaði símtalið mitt!
            Hvað gerir maður þegar maður lendir í svona löguðu? Nú, hringir auðvitað í besta bólfélagann, Blásturshljóðfæraleikarann:
            „Hæ?“ svaraði hann hissa.
            „Hæ, hvar ert þú?“ spurði ég óþreyjufull.
            „Ömm, niðri í bæ.“
            „Ég líka, viltu hittast?“
            „Já, já,“ svaraði hann, virtist nokkuð glaður. „Ég vissi ekki að þú myndir hringja í mig aftur.“
            „En nú er ég að því. Hvar ertu?“
            „Ég er á Kaffibarnum,“ svaraði hann. Nú gæti ég sýnt Eric hverju hann væri að missa af.
            „Ég er einmitt í röðinni!“ Við kvöddumst og hann sagðist hitta mig inni.
            Ég fór inn. Ég sá Eric ekki í salnum. Gekk þvert yfir staðinn þar til ég kom að kónginum (Kaffibarinn er í laginu eins og typpi) eins og lítil sáðfruma við fullnægingu. Sjitt. Eric og Blásturshljóðfæraleikarinn sátu á sama borði og spjölluðu. Ég bakkaði hægt út ganginn, sneri mér við og hljóp til vinkonu minnar sem stóð í röðinni að barnum.
            „Ég er í vanda,“ sagði ég.
            „Hvað?“
            Ég sagði henni frá klemmunni sem ég var komin í og beið álits. Hún starði bara hugsi út í loftið.
            „Hvað viljið þið?“ spurði barþjónninn.
            „Tvo bjóra,“ sagði vinkona mín.
            „Nei, ekki bjór fyrir mig. Ég vil gin og tónik,“ leiðrétti ég. Ég var staðráðin að fara með öðrum hvorum stráknum heim og vildi ekki blása magann minn út af bjór. Vinkona mín þekkti þessa reglu mína.
            „Ah, ég skil. Þú ert að biðja mig um að velja fyrir þig,“ sagði hún.
            „Nei,“ svaraði ég. „Kannski. Jú. Ég veit það ekki.“
            „Ókei, þessi Eric virðist ekkert hafa það mikinn áhuga á þér svo ég myndi bara fara með Blásturshljóðfæraleikaranum. Sérstaklega ef hann er betri í bólinu.“
            Ég bað barþjóninn um auka bjór og ætlaði mér að gefa Blásturshljóðfæraleikaranum.
            „Bíddu,“ sagði vinkona mín og ég sneri mér við. Þá setti hún rör ofan í brjóstaskoruna mína og blés. Barmurinn þandist út.
            Ég gekk til strákanna.
            „Hæ,“ sagði ég og beindi orðum mínum að Blásturshljóðfæraleikaranum.
            „Hæ,“ sagði hann og færði sig til hliðar svo ég gæti fengið mér sæti við hlið hans. Ég settist og rétti honum bjórinn.
            „Vá, takk.“ 
            „Svo, hvað hefur þú verið að gera síðustu vikurnar?“ spurði hann.
            „Æ, ekkert eiginlega. Þetta er búið að vera nokkuð rólegur tími. Svolítið að gera í skólanum. Annars gerðist ekkert spennandi.“ Ég hækkaði röddina svo Eric gæti heyrt. Ekki neitt. Ekki einn skapaður hlutur. Allavega ekkert frásögufærandi. Hvað með þig?“
            „Bara voða lítið líka. Ég reyndi að hringja í þig síðustu helgi en þú svaraðir ekki.“
            Ég mundi eftir því. Ég sá númerið hans í listanum yfir ósvöruð símtöl eftir nóttina með Eric.
            „Já, sorrí. Ég heyrði ekki í símanum,“ sagði ég afsakandi.
            „Má ég kynna þig fyrir bróður mínum, Eric,“ sagði hann og færði sig aftur svo augu okkar Erics mættust. Þeir voru bræður! Ég missti andlitið.
            „Eric, þetta er Fanney,“ sagði hann.
            „Hæ,“ sagði ég vandræðalega. Eric kinkaði kolli, virtist enn vandræðalegri en ég. Blásturshljóðfæraleikarinn hafði greinilega sagt honum frá mér.
            „Bíddu aðeins,“ sagði ég og hljóp til vinkonu minnar með nýjustu upplýsingarnar.
            „Frábært!“ sagði hún.
            „Frábært?“
            „Já, fyrir mig. Þetta er frábært slúður. Aumingja þú samt, að lenda í þessu.“
            „Hvað á ég að gera?“ sagði ég nokkuð óánægð.
            „Ég er enn á því að þú ættir að fara heim með þessum rúmgóða.“
            „En þeir eru bræður,“ sagði ég, „það breytir öllu! Og hvað ef Eric er að segja honum frá mér akkúrat núna.“
            „Flýttu þér þá aftur til þeirra!“
            Ég hlýddi og hljóp aftur inn eftir ganginum.
            „Hæ, ég þurfti að tala við vinkonu mína.“ Ég tók eftir því að Eric var horfinn. „Hvar er bróðir þinn?“
            „Hann fór á klósettið,“ sagði Blásturshljóðfæraleikarinn.
            „Ókei, bara um leið og ég fór?“ spurði ég. Ég vildi vita hvort hann hafði nokkuð sagt honum frá mér. „Þið hafið ekkert talað saman á meðan ég var í burtu?“
            „Nei. Af hverju spyrðu?“ Blásturshljóðfæraleikaranum var farið að gruna eitthvað.
            „Æ, bara,“ sagði ég, vissi ekki hverju ég gæti logið að honum. „Hey, viltu koma heim til mín á eftir?“
            Honum virtist bregða við framhleypnina.
            „Ja, það hljómar vissulega betur en skítugt salerni eins og síðast.“
            Ég flissaði og greip um lærið hans. Hann tók því vel og lagði sína hendi á mitt læri. Ég hallaði mér upp að honum til að kyssa hana. Varir okkar snertust. Ég fann hann renna hendinni lengra upp lærið mitt, upp undir pilsið. Ég tók um vanga hans og kyssti hann enn ákafara. Tungur okkar léku hvor um aðra. Þegar hann ætlaði að fara lengra upp fótlegginn minn hætti ég að kyssa, þetta var farið að jaðra við kynlíf á almanna færi. Eric stóð fyrir framan okkur.
            „Ó, hæ,“ sagði Blásturshljóðfæraleikarinn.
            Eric svaraði engu. Hann virtist fúll.
            „Er í lagi með þig?“ spurði Blásturshljóðfæraleikarinn.
            „Mætti ég tala við þig aðeins?“ spurði Eric.
            „Já, ekkert mál,“ svaraði bróðir hans og bjó sig undir að standa upp.
            „Nei, þig, Fanney.“
            Ég gekk þögul út í reykingarport með honum.
            „Hvað á þetta að þýða?“ spurði hann.
            „Ég hafði ekki hugmynd um að þið voruð bræður,“ svaraði ég.
            „Vá, það er eins og þú hafir verið send af einhverjum bara til þess að eyðileggja líf mitt. Svafstu í alvörunni hjá bróður mínum?“
            Ég glotti. „Tvisvar.“
            „Djöfullinn hafi það.“
            „Erum við búin að tala saman? Ég er svolítið upptekin,“ sagði ég.
            „Gerðu það, ekki fara með honum heim. Þetta er bróðir minn.“
            „Ég ræð með hverjum ég fer heim. Ég er búin að spyrja hann.“
            „Þú ert þegar búin að eyðileggja eitt samband fyrir mér. Þú getur ekki komið upp á milli mín og bróður míns. Það eru fjölskyldubönd!“
            „Hvað áttu við? Hvaða samband eyðilagði ég fyrir þér?“ Ég setti hendur á mjaðmir.
            „Ég átti kærustu, við hættum saman í stutta stund. Svo hitti ég þig. Eftir það vildi hún byrja aftur með mér en varð svo fokreið þegar hún frétti af þér að hún hefur enn ekki viljað sjá mig.“
            Ég fann reiðina blossa inni í mér. Var hann að kenna mér um sambandslit sín?
            „Ef það væri ekki fyrir þig,“ sagði hann, „þá væri ég enn þá með henni.“
            Ég löðrungaði hann og öskraði: „Þú svafst alveg jafnmikið hjá mér og ég svaf hjá þér!“
            Ég hljóp aftur inn og náði í Blásturshljóðfæraleikarann.
            „Komdu,“ skipaði ég.
            Við tókum leigubíl heim til mín. Sögðum ekki orð við hvort annað. Hann var farinn að vera órólegur en mér var alveg sama. Ég þurfti engin orð, bara líkamlega útrás. Hana fékk ég. Þrisvar.