Tuesday, October 26, 2010

– Þrjú viðtöl –



Karl bauð mér að fylgja ríkum útlendingi síðastliðna helgi. 200.000 á tímann er ekki lítið og hefði hálftími með honum næstum borgað alla leigu þessa mánaðar. Ég hef enn ekki fengið svar frá Húð og kyn svo ég tek enga áhættu, ég þoli ekki fólk sem sefur hjá þrátt fyrir að það hafi grun um að vera smitað af einhverjum óþverranum. Og ekki veit ég til að starfssystur mínar hafi mikinn metnað fyrir hreinleika, þær vilja auðvitað ekki smitast, en ef það gerist þá er þeim nokkuð sama þótt þær smiti aðra. En ég hef sterka trú á prinsippum – svo ég neitaði ríka útlendinginum um fylgdarþjónustu. Hefðu aðstæður verið öðruvísi hefði ég auðvitað tekið að mér þetta verkefni. En þegar vinkonan fer í pásu þá á buddan það til að gera slíkt hið sama. Ég á ekki mikinn pening eftir og miðað við hversu lítið ég hef unnið þennan mánuð mun ég rétt aðeins eiga fyrir leigunni. Til að leysa þann vanda ákvað ég að fá mér meðleigjanda. Staðsetningin íbúðarinnar er frábær og verðið á herberginu er gott og því hafa margir haft samband við mig. Ég er þegar búin að taka þrjá í viðtal:

Snákastelpan: Þetta viðtal var eitt af furðurlegustu samskiptum sem ég hef átt um ævina. Við vorum á allt öðrum stað í lífinu. Ég er 25 ára háskólanemi og hún var 19 ára stelpa sem hafði hætt í námi eftir grunnskólann. Það er auðvitað ekkert að því að mennta sig lítið, en hún hafði lítið sem ekkert unnið síðastliðin fjögur árin. Hún sagðist enn búa hjá foreldrum sínum og ætlaði að sækja um atvinnuleysisbætur þegar hún myndi flytja inn til mín – nema hvað að hún talaði í framsöguhætti, eins og hún væri þegar búin að fá herbergið. Þegar ég spurði hana út í gæludýr sagðist hún ekki vera með ofnæmi fyrir hundum (en ég á einn rottweilerhvolp) en hún sjálf ætti snák. Hún sagðist þó að hún ætlaði að geyma snákabúrið inni hjá sér, en var ekki viss hvort hún myndi fá sér lifandi mýs (til að gefa snákinum) eða geyma dauðar mýs í frystinum (mínum). Svo minntist hún á að ef snákurinn slippi myndi hann án efa gleypa hvolpinn minn! Svo hló hún hátt.

Amalía: Eftir fyrsta viðtalið missti ég pínulítið vonina um að finna góðan meðleigjanda. En svo boðaði ég aðra stelpu í viðtal sem ég vil kalla Amalía hérna á blogginu. Hún kom vel fyrir. Það var mikið líf í henni, hún var málglöð og við virtumst deila nokkrum áhugamálum. Hún var útskrifuð úr Listaháskólanum af fatahönnunarbraut og sagðist sauma mikið. Ég skildi ekki alveg fullkomlega hvert starf hennar var, en auk þess var hún í hálfu námi í Háskóla Íslands. Þegar síminn hennar hringdi heyrði ég að hún talaði á mjög undarlegan hátt við viðmælanda sinn, hún sletti mikið og notaði frasa sem greinilega höfðu þróast út frá áragömlum einkahúmor. Ég held hún hafi vitnað í XXX Rottweilerhunda, sem mér fannst pínulítið sniðugt. Þegar ég sá hversu vel mér líkaði við hana ákvað ég að spyrja hana aðeins persónulegri spurninga, ég gæti auðvitað ekki stundað vinnuna mína með íhaldsaman Jehóvavott í næsta herbergi. En hún var ekki vottur Jehóva. Hún var ekki einu sinni trúuð. Hún sagðist sjálf vera makalaus og var opin fyrir næturgestum mínum með því skilyrði að ég yrði opin fyrir hennar eigin næturgestum. Hún lagði mikla áherslu á að ég ætti að vera „opin“ fyrir þeim. Ég veit ekki af hverju hún valdi það orðalag, ekki vill hún að ég baki pönnukökur fyrir einnar-nætur-strákanna hennar á morgnanna? Vill hún að ég sofi líka hjá þeim? En hvernig sem því líður virtist hún skemmtileg, var alls ekki lokuð gagnvart kynlífi utan hjónabands og hafði næmara auga fyrir tísku en ég (ég þarf stundum hjálp í þeim málum). Hún kom sterklega til greina.

DA HUNK: Ég heyrði voða lítið af því sem hann var að segja. Hann var of:

Ástarkveðjur!